Víkingar á Hótel Hlíð

Víkingafélagið Rimmugýgur heldur veglega vorhátíð á Hótel Hlíð í Ölfusi um næstu helgi, dagana 5. til 7. júní.

Víkingahópurinn mun tjalda víkingatjöldum, setja upp smiðjur og sýna gestum og gangandi hvernig lífið gekk fyrir sig á víkingamarkaði fyrir þúsund árum.

Handverk og vinnubrögð víkingatímans verða í öndvegi en víkingarnir munu líka sýna bardagaatriði á laugardag klukkan 14, 16 og 18 og á sunnudag klukkan 14 og 16.

Víkingarnir í Rimmugýgi hvetja fólk eindregið til að koma í heimsókn og skoða víkinga í sínu umhverfi. Grill og varðeldur verður á laugardagskvöldið.

Víkingafélagið Rimmugýgur er elst víkingafélaga hér á landi, stofnað 1997.

Allir eru velkomnir á víkingahátíðina á Hótel Hlíð – aðgangseyrir er enginn.

Fyrri greinEllefu met á Grunnskólamóti Árborgar
Næsta greinOpið hús í Bragganum í kvöld