„Víglundur var vinur allra“

Víglundur Þorsteinsson lést af slysförum 28. maí síðastliðinn.

Fimmtudagskvöldið 26. júní næstkomandi verða haldnir tónleikar til styrktar fjölskyldu Víglundar Þorsteinssonar frá Haukholtum, sem lést af slysförum þann 28. maí síðastliðinn.

Tónleikarnir verða haldnir í félagsheimilinu á Flúðum og eru þeir hugsaðir fyrir alla fjölskylduna.

„Svona atburður snertir alla í hreppnum, alla í uppsveitunum og örugglega alla landsmenn. Víglundur var einstaklega stór persónuleiki og fór mikið fyrir honum og þeim bræðrum hvar sem þeir komu. Víglundur var vinur allra og alltaf hress og kátur. Samfélög eins og þetta eru náin og alla langar að gera eitthvað í svona aðstæðum en við erum um leið svo vanmáttug. Fjölskyldan í Haukholtum er öllum góð og svarið „já“ var alltaf fyrst í einu og öllu,“ segir Bessi Theodórsson, annar skipuleggjandi tónleikanna, í samtali við sunnlenska.is.

Bessi Theodórsson. sunnlenska.is/Benedikt Hrafn Guðmundsson

Allir tilbúnir að hjálpa
Bessi sér um að skipuleggja tónleikana ásamt Ragnheiði Hallgrímsdóttur á Sólheimum. „Ragnheiður hafði samband við mig og viðraði þessa hugmynd sem ég tók vel í og eftir það samtal hefur kjarnorkuverið Ragnheiður verið á fullu við undirbúning nánast í svefni og vöku,“ segir Bessi.

„Ég hef verið auðmjúkt verkfæri í höndum hennar við undirbúning. Þó það sé í mörg horn að líta hefur þetta gengið hratt og ótrúlega vel. Allir virðast vera með svarið „já“ efst í huga. Allir eru boðnir og búnir að koma og leggja lóð sín á vogarskálarnar.“

Allir eiga að geta komið og notið
Bessi segir að það hafi gengið vonum framar að fá listamenn til að koma fram á tónleikunum en allir þeir sem koma að tónleikunum með einum eða öðrum hætti gefa vinnuna sína.

„Hr. Hnetusmjör var fyrstur og fremstur mættastur á listann, VÆB bræður þurftu ekki að hugsa sig um og Stuðlabandið sömuleiðis. Þá hafa Marínó og Stuðlabandið einnig tekið að sér auknar byrðar með tæknimál og tengslanet svo eitthvað sé nefnt.“

„Tónleikarnir hefjast snemma, við opnum húsið 18:00 og öll fjölskyldan kemur saman. Við erum með viðmiðunarverð á miðum en hver gestur fær athygli, alltaf í boði að borga meira en ef það koma stórar fjölskyldur saman finnum við bara eitthvað sanngjarnt. Það eiga allir að geta komið og notið. Við hugsum minna um miðaverðið. Svo verðum við með létta veitingasölu og Pizzavagninn mætir, svo það þarf ekki að hugsa fyrir kvöldmatnum. Tónleikarnir munu standa til um það bil 23:00.“

Fjölskyldan í Haukholtum fær allan ágóðann
Aðspurður hvort þau vonast til að safna einhverri ákveðinni upphæð á tónleikunum segir Bessi svo ekki vera. „Því síður erum við með hugmynd um það hvað mun safnast. En það skiptir engu máli hvar þú eyðir peningum á þessu kvöldi, allt mun það skila sér til fjölskyldunnar í Haukholtum.“

Bessi segir að nú þegar hafi fjöldi fyrirtækja og einstaklinga lagt sitt til svo að kvöldið gangi vel. „Kvenfélag Hrunamannahrepps hefur haldið utan um söfnun og aðstoð við fjölskylduna. Sá sjóður er og verður opinn fyrir framlög og þeim sem vilja og tök hafa, en komast ekki á tónleikana, er bent á bankareikninginn 0325-22-001401, kennitala, 700169-7239. Annars eru öll hvött til að koma og njóta á fallegu kvöldi fyrir alla fjölskylduna. Væntanlega verða bros, tár, hlátur og faðmlög allt í bland,“ segir Bessi að lokum.

Facebook-viðburður tónleikanna

Fyrri greinViðbúnaður á Selfossflugvelli í dag
Næsta greinSelfoss enn í brekku