Vígðu nýtt gróðurhús með kartöfluveislu

Ljósmynd/Aðsend

Leikskólinn Álfheimar hlaut styrk úr samfélagssjóðum Krónunnar og Landsvirkjunar og nýtti styrkina til að kaupa sér Bamba gróðurhús.

Foreldrafélagið sá svo til þess að skólinn fengi húsið sent á staðinn og keypti mold í gróðurkerin sem fylgja með. Bambahúsin eru íslensk framleiðsla úr endurunnu efni, þau eru sterk og henta sérstaklega vel fyrir íslenskar aðstæður.

„Við notuðum tækifærið á degi íslenskrar náttúru til að vígja nýja húsið og fagna því með samveru úti í garði. Þar kveiktum við bál, bæði til að hafa það huggulegt en líka til að geta soðið nýju kartöflurnar okkar. Kartöflurnar ræktuðum við sjálf og tókum þær upp daginn áður. Við sungum saman nokkur lög meðan kartöflurnar voru að soðna, síðan tókum við stóru slaufuna af húsinu og þá máttu allir fara inn og skoða,“ segir Soffía Guðrún Kjartansdóttir, sérgreinastjóri útikennslu á Álfheimum.

„Þegar við vorum búin að skoða voru kartöflurnar tilbúnar, sumar voru stórar en aðrar alveg pínulitlar. Þá gátum við komið í kartöfluröðina og fengið kartöflu í lófann, við máttum velja hvort við vildum litla eða stóra og máttum koma eins oft og við vildum. Sumir borðuðu rosa margar kartöflur, sumir vildu enga, en sumir vildu smakka þegar þeir voru búnir að hugsa málið og sáu hvað hinir voru glaðir og ánægðir með kartöflurnar sínar. Þetta voru bestu kartöflur í heimi og við hlökkum til að rækta meira gómsætt í nýja gróðurhúsinu okkar,“ bætir Soffía við en Álfheimar vilja koma á framfæri sérstöku þakklæti til Krónunnar, Landsvirkjunar og foreldrafélagsins.

Myndir frá deginum má sjá hér að neðan.

Fyrri greinEggert Valur nýr formaður Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi
Næsta greinZelsíuz og Bungubrekka tilnefnd til Íslensku menntaverðlaunanna