Viðsnúningur í rekstri Samkaupa

Framkvæmdastjórn Samkaupa 2024. (F.v.) Heiður Björk Friðbjörnsdóttir, framkvæmdastjóri fjármálasviðs Samkaupa, Gunnar Egill Sigurðsson, forstjóri, Hallur Geir Heiðarsson, framkvæmdastjóri innkaupa- og vörustýringasviðs og Gunnur Líf Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri verslunar- og mannauðssviðs. Ljósmynd/Aðsend

Samkaup hf. samþykku ársreikning fyrir rekstrarárið 2023 á aðalfundi félagsins í gær. Í tilkynningu frá félaginu segir að niðurstöður ársreikningsins endurspegli þá miklu vinnu sem stjórnendur hafa lagt í innri vinnu og aukna skilvirkni í rekstri.

Samkaup hagnaðist um 268 milljónir króna á síðasta ári samanborið við 192 milljóna tap árið 2022. Vörusala jókst á milli ára og nam rúmum 42,3 milljörðum, samanborið við rúma 40 milljarða árið áður. Þá var eigið fé í árslok 3.139 milljón króna, samanborið við 3.021 milljónir árið 2022 og eiginfjárhlutfall 17,2%.

„Síðasta ár var krefjandi á dagvörumarkaði með miklum kostnaðarhækkunum. Fordæmalausar verðhækkanir birgja og framleiðenda, dýrir kjarasamningar og hátt vaxtastig og verðbólga. Dagvörumarkaðurinn dróst saman í upphafi árs en fór að rétta úr kútnum yfir sumarið og hélt sú þróun áfram út árið. Innkaupsverð hækkaði mikið á árinu en alls bárust um 300 tilkynningar um verðhækkanir frá birgjum á árin sem hafði veruleg áhrif á framlegð. Laun hækkuðu mikið  á árinu,“ segir í tilkynningu félagsins.

Samkaup reka meira en 60 verslanir víðsvegar um land undir merkjum Nettó, Kjörbúðarinnar, Krambúðarinnar og Iceland.

Mikil innri vinna en missa ekki sjónar á markmiðinu
Gunnar Egill Sigurðsson, forstjóri Samkaupa, segir að ef árið 2023 sé dregið saman þá sé uppgjörið markað af mikilli vinnu og útsjónarsemi stjórnendateymis Samkaupa.

„Allir þjónustusamningar voru endurskoðaðir eða sagt upp, fækkað var í yfirstjórn og á skrifstofu, verslun lokað og opnunartími verslana endurskoðaður. Þrátt fyrir þennan mikla fókus á innri vinnu misstum við aldrei sjónar á því markmiði okkar að bjóða viðskiptavinum okkar gæðavörur á góðu og samkeppnishæfu verði. Má nefna að á síðasta ári lækkuðum við verð á Xtra vörumerkinu okkar til þess að koma til móts við viðskiptavini okkar og sporna gegn áhrifum verðbólgu á dagleg innkaup fólks. Þá nýttum við síðasta ár í að þróa appið okkar áfram en það veitir viðskiptavinum okkar 2% appslátt af allri verslun í öllum verslunum Samkaupa,“ segir Gunnar Egill.

Helstu niðurstöður rekstrarársins 2023: 

  • Vörusala nam 42.340 m.kr., samanborið við 40.546 m.kr. á árinu 2022
  • Framlegðarhlutfall nam 26%, samanborið við 24,8% á árinu 2021.
  • Hagnaður fyrir afskriftir, fjármagnsliði og skatta (EBITDA) nam 2.693 m.kr., samanborið við 1.915 m.kr. á árinu 2022.
  • Hagnaður eftir skatta nam 268 m.kr., samanborið við 192 m.kr. tap á árinu 2022.
  • Heildareignir í árslok námu 18.259 m.kr., samanborið við 20.101 m.kr. á árinu 2022.
  • Eigið fé í árslok nam 3.139 m.kr., samanborið við 3.021 m.kr. á árinu 2022.
  • Eiginfjárhlutfall var 17,2%, samanborið við 15% á árinu 2022.
  • Samfélagsskýrslu fyrir árið 2023 má finna hér.
Fyrri greinLögreglan æfir með sérsveitinni og sjúkraflutningum
Næsta greinNokkur ungmenni hafa stöðu sakbornings eftir íkveikju