Viðreisn býður fram í Árborg

Selfoss. sunnlenska.is/Jóhanna Petersen

Viðreisn mun bjóða fram lista í Árborg í komandi sveitarstjórnarkosningum. Þetta er í fyrsta sinn sem flokkurinn býður fram lista í eigin nafni í sveitarfélaginu.

Þetta var samþykkt á félagsfundi Viðreisnar í Árnessýslu síðastliðinn mánudag og þar var einnig samþykkt að stilla upp lista með uppstillingu. Uppstillingarnefnd verður kosin á næsta félagsfundi og er undirbúningur fyrir framboðið þegar hafinn.

„Ég er mjög spenntur fyrir þessu næsta verkefni Viðreisnar í Árborg. Við höfum undanfarin ár tekið þátt í bæjarmálunum með Áfram Árborg, þar með talið í núverandi meirihluta. En nú er kominn tími til að bjóða fram sterkan lista í nafni Viðreisnar og halda áfram að byggja upp gott samfélag með áherslu á þjónustu við fjölskyldufólk og alla bæjarbúa,“ segir Axel Sigurðsson, formaður Viðreisnar í Árnessýslu og varabæjarfulltrúi í Árborg.

„Viðreisn er vel undirbúin og staðráðin í að leiða öflugt og framsækið framboð til sveitarstjórnarkosninga. Með skýra sýn, traustu baklandi og reynslu af þátttöku í bæjarmálum er flokkurinn tilbúinn að taka næsta skref og vinna að farsælli framtíð fyrir Árborg,“ segir Axel ennfremur.

Í tilkynningu frá flokknum segir að Viðreisn Árborg muni leggja áherslu á frjálslynda og ábyrga stjórnmálastefnu með skýra framtíðarsýn fyrir samfélagið í Árborg. Þau sem áhugasöm eru um að starfa með framboði Viðreisnar í Árborg eða vilja koma með ábendingar um gott fólk eru hvött til að hafa samband með því að senda tölvupóst á netfangið arnessysla@vidreisn.is. Farið verður með allar upplýsingar sem trúnaðarmál, segir ennfremur í tilkynningunni.

Fyrri greinBjarni hættir með Selfossliðið
Næsta greinGrindvíkingar í fókus: Nýtt stuðningsverkefni til valdeflingar