Viðgerð á Hvolsvallarlínu 1 er lokið og er rafmagn komið að fullu á svæðið sem varð rafmagnslaust á ellefta tímanum í morgun. Slitin bugt á Hvolsvallarlínu 1 við Ytri-Rangá leiddi til þess að rafmagnslaust varð á stóru svæði milli Hellu og Víkur og í Vestmannaeyjum.
Varaafl var ræst þar sem það var til staðar svo að rafmagnsleysið varði víðast í stuttan tíma.
Í tilkynningu frá Landsneti segir að vinna við tengivirki á Hellu undanfarnar vikur geti haft áhrif á tengingar og gert rafmagnsleysi víðtækara en venjan er þegar Hvolsvallarlína leysir út. Vinnan við tengivirkið er hluti af styrkingu á hringtengingu á Suðurlandi.