Viðbúnaður dýraeigenda vegna náttúruhamfara

sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Í ljósi þess að ríkislögreglustjóri hefur lýst yfir óvissustigi almannavarna á Reykjanesi, hvetur Matvælastofnun ábyrgðarmenn dýra á svæðinu til að gera áætlanir og undirbúa viðbrögð í því skyni að draga úr hættu á slysum og þjáningum dýranna.

Komi til þess að flytja þurfi sauðfé burt af svæðinu þarf að hafa í huga að vegna riðu má ekki flytja fé í önnur varnarhólf, nema með aðkomu Matvælastofnunar. Reykjanesið tilheyrir Landnámshólfi, sem skiptist í sýkt og ósýkt svæði hvað varðar riðu. Innan sýkta svæðisins eru sveitarfélögin Ölfus, Hveragerði og Grímsnes- og Grafningshreppur en í ósýkta hlutanum eru sveitarfélögin á Suðurnesjum og á Höfuðborgarsvæðinu. Fé má ekki flytja frá sýktu svæði til ósýkts.

Því þurfa fjáreigendur á Reykjanesi að leitast við að finna stað í ósýkta hluta hólfsins, til að flytja féð á ef nauðsyn krefur. Ef enginn kostur innan ósýkts svæðis er mögulegur skal samband haft við Matvælastofnun sem mun þá meta þau úrræði sem völ er á.

Fyrri greinHamar vann toppslaginn á Egilsstöðum
Næsta greinÞögla barnið komin í kilju