Viðbragðsáætlun Selfossveitna virkjuð aftur

sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Vegna frostakaflans framundan hefur viðbragsáætlun Selfossveitna verið virkjuð aftur. Eins og áður er hluti af henni að hvetja íbúa til að huga að sínum enda hitaveitunnar og fara sparlega með vatn.

Viðbragðsáætlunin var virkjuð í síðasta kuldakasti og segir í tilkynningu frá Selfossveitum að íbúar eigi þakkir skildar fyrir góð viðbrögð.

„Heitavatnsnotkun varð minni en venjulega í síðasta kuldakasti sem má rekja til tillitsemi íbúa þegar kemur að notkun á heitu vatni,“ segir í tilkynningunni.

Fólk getur sparað heitt vatn og þar með kyndikostnað sinn með því að gæta að því að gluggar séu ekki opnir og útidyr ekki látnar standa opnar lengur en þörf er á. Þá skipta einnig máli stillingar ofna, að óþarflega heitt vatn renni ekki frá þeim og að ofnarnir séu ekki byrgðir, til dæmis með síðum gluggatjöldum eða húsgögnum.

Þá eru heitir pottar við heimili talsvert þurftafrekir á vatnið og gott að hafa í huga að fara sparlega með neysluvatn eins og við uppvask og böð.

Fyrri greinÁbyrg fjármálastjórn – lægri gjöld
Næsta greinPrófkjör hjá X-D í Árborg 19. mars