„Við vildum gera þetta myndarlega“

Valtýr Pálsson, einn eigenda Golfsvítunnar. sunnlenska.is/Jóhanna Petersen

Golfsvítan opnaði nýlega að Víkurheiði 16 á Selfossi. Þar geta einstaklingar og hópar komið og spilað saman golf eða stundað golfæfingar í golfhermi.

„Það vantar afþreyingu á Selfossi. Okkur hefur fjölgað svo mikið og það eru svo margir í golfi. Þessi mikla aukning kallaði á meiri afþreyingu af þessu tagi og við vildum gera þetta myndarlega,“ segir Valtýr Pálsson, einn eigenda Golfsvítunnar, í samtali við sunnlenska.is.

Valtýr rekur Golfsvítuna ásamt syni sínum, Óla Hauki Valtýssyni, í samstarfi við Golfsvítuna á höfuðborgarsvæðinu en þess má geta að einn eigenda Golfsvítunnar er Selfyssingurinn Guðmundur Árni Ólafsson, fyrrverandi handboltamaður.

Hægt er að velja um 500 golfvelli til að spila á í Golfsvítunni á Selfossi. Ljósmynd/Golfsvítan

Í Golfsvítunni er hægt er að velja um 500 golfvelli til að spila innigolf. „Þetta er fyrir styttra og lengri komna. Það eru miklir möguleikar fyrir fjölskyldur því að það eru allskonar barnaleikir í þessum hermum sem tilheyra golfi. Við lögðum okkur fram við að vanda okkur þannig að sem flestum líki. Við erum til dæmis með geymslu hérna þar sem fólk getur geymt golfsettin sín allan veturinn og þarf þá ekki að vera að þvælast með þau í snjónum.“

„Við erum ekki búin að vera með opið nema í þrjár vikur og viljum við þakka ofsalega vel fyrir hvað það er mikill áhugi fyrir þessu og þær góðu viðtökur sem við höfum fengið.“

Reiðubúnir að hjálpa
Valtýr segir að fyrirkomulagið í Golfsvítunni sé ósköp einfalt. „Þú pantar tíma á golfsvitan.is og þá færðu afhentan kóða að hurðinni sem tekur gildi korteri áður en þú átt að spila og svo ertu í einn, tvo, þrjá tíma eða bara hvað þú vilt.“

„Það er ekki starfsmaður í húsinu og ég hef heyrt að fólk sé feimið að koma því að það er feimið við tölvurnar. En þá erum við reiðubúnir að hjálpa. Það þarf ekki annað en að skrifa okkur á gselfoss@gmail.com og við erum reiðubúnir að hitta fólk og koma því af stað með þau mál.“

Það tók þrjá mánuði að standsetja Golfsvítuna á Selfossi en hún inniheldur þrjár golfsvítur. Ef vel gengur sér Valtýr fram á að opna þrjár aðrar svítur í sama húsnæði.

Valtýr og Óli Haukur sonur hans eru boðnir og búnir að aðstoða fólk ef það er eitthvað feimið við tölvurnar í Golfsvítunni. sunnlenska.is/Jóhanna Petersen

Ryder keppnin hefur áhrif
Í Golfsvítunni er hægt að spila á sex íslenskum völlum sem eru að sögn Valtýs allir vinsælir. „Svo skiptir alltaf máli hverju sinni hvar Ryder keppnin er haldin, hvar var hún síðast eða hvar hún verður næst. Fólk vill spila á þeim völlum þar sem keppnin er. Eins vill fólk líka prófa þessa velli sem meistararnir úti í heimi eru að spila á.“

„Ég hvet sem flesta til að koma og prófa. Fólk þarf ekki að vera feimið að biðja um aðstoð í sambandi við tölvurnar. Maður kann ekki á þetta þegar maður sér þetta fyrst og það er svo sjálfsagt að aðstoða fólk að koma því af stað,“ segir Valtýr að lokum.

Fyrri greinPáll Óskar steig óvænt á stokk í Vallaskóla
Næsta greinHlakka til að fá mér kaffi þegar ég vakna