„Við hefðum átt að gera betur“

Fjölbrautaskóli Suðurlands. sunnlenska.is/Jóhanna SH

Skólanefnd Fjölbrautaskóla Suðurlands segir ljóst að viðbrögð stjórnenda skólans og skólanefndarinnar hafi átt vera betri eftir að meint kynferðisbrot átti sér stað innan veggja skólans í síðustu viku.

Í yfirlýsingu frá skólanefnd FSu segir að stjórnendur og skólanefnd skólans líti málið mjög alvarlegum augum. Svona mál séu alltaf viðkvæm og stjórnendur skólans ásamt skólanefnd beri ábyrgð á viðbrögðum skólans og miðlun upplýsinga um þau til nemenda, foreldra og fjölmiðla. „Þar er ljóst að við hefðum átt að gera betur,“ segir í yfirlýsingunni.

Skólanefnd FSu hefur fundað með skólastjórnendum vegna málsins og fundar með þeim aftur á morgun, mánudag. Stjórnendur skólans funda með fulltrúum nemendafélags skólans á morgun og óska einnig eftir samtali við foreldrafélag FSu.

Í yfirlýsingunni kemur einnig fram fram að skólinn muni fá óháðan aðila til ráðgjafar um viðbrögð og aðgerðir í málum sem þessu.

Í tölvupósti sem Olga Lísa Garðarsdóttir, skólameistari, sendi nemendum og forráðamönnum í kvöld kemur fram að meintur gerandi mun ekki mæta í skólann á næstunni.

Fyrri greinHamar tapaði á Vopnafirði
Næsta greinÁrborg kom til baka í háspennuleik