„Við erum svakalega spennt“

Silja og Kristján ásamt börnum sínum, Elvari Eldjárn og Elínu Eriku, við opnun Konungskaffis í síðustu viku. sunnlenska.is/Jóhanna SH

Síðastliðinn föstudag tóku hjónin Silja Hrund Einarsdóttir og Kristján Eldjárn við rekstri kaffihússins Konungskaffi á Selfossi.

„Aðdraginn var mjög stuttur, við höfum verið búsett í Montreal í Kanada í rúm sex ár en vorum að leita að smá fjárfestingu þegar við vorum í fríi hér í sumar. Án þess að við værum að hugsa um að flytja aftur til Íslands þá kom þessi hugmynd upp þegar við vorum á leiðinni til baka,“ segir Silja Hrund í samtali við sunnlenska.is.

„Okkur leist strax vel á og það tók okkur aðeins nokkra daga að hugsa þetta af alvöru og ræða við okkar vinnuveitendur úti. Svo pökkuðum við bara öllu saman og tveimur vikum seinna vorum við flutt heim. Tveimur vikum eftir flutningana tókum við svo við rekstrinum á Konungskaffi.“

„Við erum svakalega spennt fyrir þessu öllu saman. Það sem okkur finnst heillandi er þessi fjölbreytni og samvinna á milli rekstraraðila hér á svæðinu, við styrkjum hvert annað og sköpum þessa sterku heild. Við heyrum ekkert annað en jákvæðni frá íbúum Árborgar varðandi miðbæinn og uppbygginguna sem hér hefur átt sér stað, og yfir því sem á eftir að koma.“

Veitingarnar við opnunina voru ekki af verri endanum. sunnlenska.is/Jóhanna SH

Frá Montreal til Selfoss
Silja og Kristján hafa bæði ágætis bakgrunn þegar kemur að því að reka kaffihús en Silja hafði verið að vinna á kaffihúsi úti í Montreal samhliða því að læra frönsku og sinna jógakennslu.

„Kristján er áfram í sínu starfi í fjarvinnu hjá kanadísku hugbúnaðarfyrirtæki en hann lærði á sínum tíma matreiðslu á Hótel Selfoss hjá Tómasi Þóroddssyni bróðir sínum og starfaði sem slíkur í nokkur ár og sú reynsla mun án efa hjálpa til. Svo hefur sonur okkar verið sumarstarfsmaður hér á Konungskaffi í tvö sumur. Við teljum okkur því hafa sæmilega hugmynd um hvað vegferð við erum á.“

Alsæl að vera komin á Selfoss
Aðspurð hvernig það sé að vera flutt heim aftur eftir svona langa dvöl erlendis segir Silja að þetta hafi allt gerst mjög hratt hjá þeim. „Ég held að þeir sem flytji erlendis sjái það alltaf smá fyrir sér að flytja aftur heim á einhverjum tímapunkti. Við höfðum þá frekar haft augastað á höfuðborginni þó svo fjölskyldur okkar beggja séu hér á svæðinu. En við erum alsæl að vera komin á Selfoss og Árborg hefur breyst mikið á síðustu árum, þjónustuúrvalið og tækifærin fjölbreyttari og betri.“

„Okkur líður mjög vel með að vera flutt aftur heim og vera núna í göngufæri við fjölskylduna. Eins erum við þakklát fyrir hvað það er tekið vel á móti dóttur okkar í skólanum en hún er í fyrsta skipti í íslenskum skóla. Sonur okkar er síðan í menntaskóla í Reykjavík og verður í helgarvinnu hjá okkur í vetur.“

Fyrst og fremst fyrir heimamenn
Silja segir að með nýju fólki komi alltaf einhverjar breytingar. „Mið munum að sjálfsögðu halda áfram að bjóða upp á gott kaffi og við höfum nú þegar boðað endurkomu brauðtertunnar sem er svo sígild, auk annara rétta og viðburða. Við ætlum meðal annars að hafa opið lengur á föstudögum og hafa svokallaðan Royal (Happy) Hour.“

„Það eru síðan góðar líkur á að við verðum með nýjungar innblásin af því sem við höfum séð og upplifað í Montreal, sem er fjölbreytt borg og hefur iðandi kaffihúsamenningu. Þetta verður fjölskyldurekið fyrirtæki og við viljum að kaffihúsið sé fyrst og fremst fyrir heimamenn. Ef fólk á svæðinu sækir staðinn þá koma ferðamennirnir, því þeir sækjast í það sem heimamenn gera,“ segir Silja að lokum.

Fyrri greinNýnemar skírðir í sól og blíðu
Næsta greinOpnað fyrir umsóknir í Uppbyggingarsjóð Suðurlands