„Við erum hrikalega spennt“

Rúmlega tuttugu manns vinna hjá ÖRLÖ, sem rekur tvær starfsstöðvar í dag. Ljósmynd/Aðsend

Nýverið kom á markaðinn íslenskt fæðubótarefni frá ÖRLÖ, sem eru omega-3 fitusýrur framleiddar úr smáþörungum. Þykir varan einstök á margan háttt, þar á meðal hvernig hún er framleidd en smáþörungarnir eru ræktaðir á sjálfbæran hátt með hátæknilausnum í jarðhitagarði ON á Hellisheiði.

„Hugmyndin kemur frá Dr. Isaac Berzin en árið 2008 var hann valinn einn af 100 áhrifamestu einstaklingum í stjórnmálum, viðskiptum eða vísindum af TIME. Isaac er frumkvöðull í ræktun smáþörunga og hefur meðal annars unnið með NASA að þróun ræktunarlausna í geimstöðvum. Að lista upp og fara yfir feril hans er hreinlega of langt fyrir stutt viðtal,“ segir Hörður Ágústsson, markaðsstjóri VAXA Technologies, í samtali við sunnlenska.is

„Í stuttu máli þá hefur Isaac verið leiðandi afl í ræktun smáþörunga síðustu áratugi og trú hans á eiginleika þeirra og tækifæri með slíkri ræktun hefur heldur betur raungerst hér við Hellisheiðarvirkjun. Draumurinn um að þróa tækni og afurð sem gæti orðið lykilþáttur, eða einn af þeim, til að tryggja fæðuöryggi mannkyns til frambúðar hefur því ræst.“

Hörður Ágústsson, markaðsstjóri VAXA Technologies. Ljósmynd/Aðsend

Einstakt framleiðsluferli á heimsvísu
Nokkur ár liðu frá því að hugmyndin kviknaði þar til hún varð að veruleika. „Isaac kemur til Íslands fyrir tilstilli Kristins Hafliðasonar, sem þá vann fyrir Íslandsstofu, en er nú framkvæmdastjóri VAXA Technologies á Íslandi. Þessi heimsókn varð til þess að Isaac sá hversu ótrúleg tækifæri væru til staðar á Íslandi hvað varðar aðstæður, orku og mannauð. Um það bil þrjú ár liðu frá því að hann kom fyrst til landsins þar til verksmiðjan opnaði árið 2019.“

„Framleiðsluferlið hjá okkur er það fyrsta sinnar tegundar í heiminum og á sama tíma hefur það jákvætt kolefnisfótspor. Öll orka og vatn sem við þurfum til framleiðslunnar kemur frá Jarðhitavirkjun ON við Hellisheiði og var ferlið því hannað í kringum þessa staðsetningu. Aðstæðurnar þar þýða að út úr framleiðslunni kemur jákvæð niðurstaða fyrir umhverfið. Það má segja að þetta sé það sem kemur fólki hvað mest á óvart varðandi starfsemi okkar.“

Verksmiðja ÖRLÖ er í jarðhitagarði ON á Hellisheiði. Ljósmynd/Aðsend

Fyrst og fremst mannauðinum að þakka
Hörður segir að framleiðsluferlið hafi gengið ótrúlega vel enda búi starfsfólk VAXA Technologies yfir gríðarlegri reynslu. „Hér eru allir á sömu vegferð og það endurspeglast í því hversu vel hefur gengið að skala upp einn lítinn gám við Hellisheiðarvirkjun upp í þá framleiðslugetu sem við höfum yfir að ráða í dag. Það er fyrst og fremst mannauðinum hér innanhúss að þakka hversu vel hefur gengið að þróa algjörlega nýja tækni við framleiðslu smáþörunga.“

„Niðurstaðan úr þessari vinnu síðustu ára er að í dag erum við að rækta tvær tegundir smáþörunga, Spirulina og Nannochloropsis. Báðir hafa sína sérstöku eiginleika og við erum alltaf að sjá nýja möguleika til að nýta þessa hátækniafurð enn betur.“

Rúmlega tuttugu manns vinna hjá ÖRLÖ, sem rekur tvær starfsstöðvar í dag. „Haustið 2023 er áætlað að byggingu nýrra höfuðstöðva okkar ljúki en þá verður allt starfsfólk okkar loksins á sama stað undir sama þaki við verksmiðjuna okkar á Hellisheiði.“

Öll orka og vatn sem þarf til framleiðslunnar kemur frá Hellisheiðarvirkjun. Ljósmynd/Aðsend

Þrisvar sinnum meiri virkni en úr fiskiolíu
Hörður segir að fólk sé fyrst og fremst uppnumið af möguleikunum sem tæknin felur í sér og hvert hægt sé að fara með þessa tækni. „Í dag erum við að framleiða tvo vöruflokka úr áðurnefndum smáþörungum. Omega töflur og svo Immunity Boost munnsprey,“ en þess má geta að allar vörurnar frá ÖRLÖ eru vegan og henta því grænkerum sérlega vel.

„Omega-3 töflurnar koma úr Nannochloropsis smáþörungunum og er vara sem við þekkjum vel. Þessi vara styrkir heilann, hjartað, liðina og ónæmiskerfið. Á sama tíma þurfti enginn fiskur að koma við sögu við framleiðslu hennar. Það er nefnilega ekki á allra vitorði að fiskiolían sem við höfum tekið daglega hér á Íslandi í áratugi verður til með því að fiskurinn sem við veiðum borðaði eitthvað sem borðaði eitthvað sem borðaði… jú þú giskaðir á það – Nannochloropsis smáþörunginn. Við sækjum því Omega fitusýrurnar beint til frumframleiðandans og því er virknin á Omega fitusýrunum okkar þrisvar sinnum meiri en til dæmis úr fiskiolíu,“ segir Hörður en þess má geta að ÖRLÖ nýtir 99% minna landsvæði og vatn en þarf til að framleiða aðrar Omega vörur.

„Immunity Boost munnspreyið er unnið úr Icelandic Ultra Spirulina smáþörungnum sem er sneisafullur af meðal annars lífvirku B12 vítamíni. Á næstu mánuðum munum við kynna til leiks enn fleiri vörur unnar úr smáþörungunum okkar og við erum rétt byrjuð að sjá hvaða möguleikar eru handan við hornið hvað vöruþróun varðar.“

Aðspurður hvar sé hægt að nálgast vörurnar segir Hörður að eins og staðan sé í dag þá er það aðeins á heimasíðu ÖRLÖ. „En með tíð og tíma má gera ráð fyrir að þær birtist sömuleiðis í hillum sérvaldra verslana. „Við erum hrikalega spennt fyrir því sem framtíðin ber í skauti sér og eins og Ólafur Ragnar sagði forðum: You ain’t seen nothing yet,“ segir Hörður að lokum.

Fyrri grein„Sound of Silence“ í Selfosskirkju
Næsta greinHamar HSK meistari í blaki karla