Viðvörun vegna vatnavár

Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra vekur athygli á eftirfarandi viðvörun frá Veðurstofu Íslands.

Í yfirstandandi viku sýna veðurspár mikinn lægðagang og því ljóst að vikan verður vætu- og vindasöm.

Á mánudegi og aðfaranótt þriðjudags er spáð mikilli úrkomu á vestanverðu landinu frá sunnanverðum Vestfjörðum um Snæfellsnes austur í Ölfus.

Aðfaranótt miðvikudags fer önnur lægð yfir með mikilli úrkomu frá Snæfellsnesi að sunnanverðum Vatnajökli. Aðfaranótt fimmtudags fram á föstudagsmorgun er svo búist við mikilli úrkomu á svæðinu frá Mýrdalsjökli að sunnanverðum Austfjörðum.

Í slíku vatnsveðri má búast við vatnavöxtum í ám og lækjum þar sem veðrið gengur yfir, svo fólki á ferð er bent á að sýna varkárni og fylgjast með veðurspám. Fylgst verður með skriðuhættu í tengslum við þetta vatnsveður.

Fyrri greinKennsla hafin í frjálsíþrótta-akademíu á Selfossi
Næsta greinSelfoss tók KR í kennslustund