Viðurkenndi nekt en sagðist vera með magaverk

Ísraelski ferðamaðurinn sem er grunaður um blygðunarsemisbrot á Selfossi þarf ekki að sæta gæsluvarðhaldi eins og lögreglustjórinn á Suðurlandi hafði farið fram á.

Maðurinn hefur verið dæmdur í farbann til 3. október næstkomandi. Hæstiréttur staðfesti í dag úrskurð Héraðsdóms Suðurlands í málinu.

RÚV greinir frá þessu.

Samkvæmt úrskurði héraðsdóms er maðurinn grunaður um að hafa stundað sjálfsfróun fyrir utan Vallaskóla á Selfossi. Í greinargerð lögreglustjóra kemur fram að vitni hafi tekið athæfi mannsins upp á Snapchat. Þar megi sjá nakinn mann sitja í bifreið á bílastæði að fitla við kynfæri sín. Bíllinn reyndist í eigu bílaleigu og var maðurinn handtekinn í Reykjanesbæ 6. september þegar hann hugðist skila bílnum.

Maðurinn gekkst við því að hafa verið nakinn í umræddum bíl en kannaðist ekki við hafa snert kynfæri sín heldur hafi hann verið með hendur á læri sínu. Maðurinn skýrði nekt sína svo að honum hafi verið mjög heitt og hafi verið með magaverk. Maðurinn mun hafa verið hér á landi í nokkra daga í tengslum við vinnu.

Lögregla telur skýringar hans ótrúverðugar þar sem honum mátti vera fullljóst að hann væri á stað þar sem vænta mátti umferðar skólabarna.

Frétt RÚV

Fyrri greinBjörgvin situr hjá að þessu sinni
Næsta greinÞórsarar sigruðu á Icelandic Glacial mótinu