Viðsnúningur í rekstri Skaftárhrepps

„Þessi árangur hefur náðst með góðri samvinnu starfsmanna sveitarfélagsins sem og þolinmæði og jákvæðu viðhorfi íbúa. Við þökkum öllum þeim sem lagt hafa hönd á plóg við að ná þessum góða árangri.“

Þetta segir Eygló Kristjánsdóttir, sveitarstjóri Skaftárhrepps en fjárhagur sveitarfélagsins hefur snúist til hins betra með samstilltu átaki sveitarstjórnar, íbúa og starfsmanna sveitarfélagsins.

Lagt var í margar smáar aðgerðir og nokkrar stórar til hagræðingar í rekstri sem og endurfjármögnun á þeim lánum sem sveitarfélagið hafði. Allt hefur þetta skilað sér í batnandi afkomu og meiri möguleikum til fjárfestinga.

Á síðasta fundi sveitarstjórnar var ársreikningur fyrir árið 2013 samþykktur en samkvæmt honum var rekstrarniðurstaða samstæðu (A og B hluta) jákvæð um 39,4 milljónir króna.

Þá má geta þess að sveitarstjórn samþykkti í tengslum við fjárhagsáætlanagerð 2014 að leikskólagjöld skyldu lækka um 15% frá áramótum enda gróska mikil hjá barnafjölskyldum í Skaftárhreppi.

Fyrri greinErlingur og Ísleifur gefa ekki kost á sér
Næsta greinAlþjóðlegir tónleikar á Eyrarbakka