Viðlagatrygging bætir ekki ræktarlönd

„Það hafa engin mál borist til okkar enda hefur ekki enn verið tilkynnt um tjón á fasteignum eða lausafé. Viðlagatrygging bætir ekki tjón á túnum eða ræktuðu landi,“ sagði Ásgeir Ásgeirsson, framkvæmdastjóri Viðlagatryggingar, í samtali við sunnlenska.is.

Ásgeir segir að Viðlagatrygging hafi á sínum tíma komið að gerð flóðavarnargarða á svæðinu og þá átti hún hlut í þeirri mikilvægu aðgerð að vatnsleiðslan sem var í gömlu Markarfljótsbrúnni var sett í jörð. „Menn væru væntanlega á nálum við þessar aðstæður núna ef það hefði ekki verið gert á sínum tíma,“ segir Ásgeir.

Á heimasíðu Viðlagatryggingar má lesa um bótaskylda tjónsatburði, sem meðal annars eru:

Eldgos, t.d. er hraun eða gjóska veldur skemmdum eða eyðileggingu á tryggðum munum.

Jarðskjálfti, sem veldur skemmdum eða eyðileggingu á vátryggðum munum.

Skriðufall, þegar skriða úr fjalli eða hlíð fellur skyndilega á vátryggða muni með þeim afleiðingum að þeir skemmast eða eyðileggjast.

Vatnsflóð merkir flóð, er verður þegar ár eða lækir flæða skyndilega yfir bakka sína eða flóðbylgjur frá sjó eða vötnum ganga á land og valda skemmdum eða eyðileggingu á vátryggðum munum. Árleg eða reglubundin flóð úr ám, lækjum, sjó eða vötnum teljast hér ekki vatnsflóð. Sama á við um venjulegt leysingavatn eða flóð, sem að einhverju eða öllu leyti verður af mannavöldum, t.d. þegar vatnsgeymar, stíflugarðar eða önnur mannvirki bresta af öðrum ástæðum en náttúruhamförum.

Fyrri greinFjörugir söngtónleikar Tónsmiðjunnar
Næsta greinHækkar í Markarfljóti