Viðbyggingin við Sundhöllina vígð

Nýja viðbyggingin við Sundhöll Selfoss var vígð formlega í dag að viðstöddu fjölmenni. Starfsemi hefst í nýju byggingunni í lok júní.

Athöfnin hófst á því að tvö ungmenni stungu sér til sunds í útilauginni og syntu eina ferð. Það voru þeir Marteinn Sigurgeirsson og Pétur Kristjánsson, en þeir voru í hópi ungmenna sem stungu sér fyrst til sunds í innilauginni þegar Sundhöll Selfoss var vígð árið 1960, þá 15 ára gamlir.

Gunnar Egilsson, formaður bæjarstjórnar, flutti ávarp og sr. Axel Á. Njarðvík blessaði bygginguna áður en gestum og gangandi var boðið í skoðunarferð um nýbygginguna, sem er einkar rúmgóð og glæsileg.

Aðeins er rúmt ár síðan fyrsta skóflustungan að nýbyggingunni var tekin, en í dag er 361 dagur síðan verktakafyrirtækið JÁVERK hóf vinnu við húsbygginguna og verður það að teljast dágóður byggingarhraði.

Á efri hæð nýbyggingarinnar verður líkamsræktaraðstaða en hæðin er í eigu JÁVERKS. Að sögn Ástu Stefánsdóttur, framkvæmdastjóra Árborgar, er unnið að því að semja við rekstraraðila fyrir líkamsræktina en líkamsræktarstöðin mun opna í haust.


Fjöldi fólks lagði leið sína í Sundhöll Selfoss í dag og skoðaði nýju aðstöðuna. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Fyrri greinLítið Skaftárhlaup hafið
Næsta greinKvartað yfir þyrluflugi yfir fuglafriðlandinu