Viðbygging við Hamar boðin út í einu lagi

Ætla má að bygging nýs verknámshúss við Fjölbrautaskóla Suðurlands á Selfossi fari fyrr af stað á þessu ári en ætlað var.

Í ljósi þess að einungis lá fyrir heimild frá fjármálaráðuneytinu til fullnaðarhönnunar viðbyggingar Hamars, leit lengi vel út fyrir að deila þyrfti framkvæmdinni í tvö útboð, það er viðbyggingin sjálf í fyrra útboði og í seinna útboði yrðu breytingar og endurbætur á Hamari.

Í desember síðastliðnum fékkst svo heimild frá fjármálaráðuneytinu til fullnaðarhönnunar á breytingum og endurbótum á Hamri og þá um leið opnaðist fyrir þann möguleika að verkið yrði boðið út í einu lagi, sem þykir hagstæðara og æskilegra frá nánast öllum sjónarmiðum.

Þetta segir Gíslína Guðmundsdóttir, verkefnastjóri hjá Framkvæmdasýslu ríkisins.

Ef heimild fæst til útboðs er ætlunin að bjóða verkið út nú í febrúar og verkleg framkvæmd ætti þá að geta hafist á vormánuðum. „Þar er átt við að endurbætur á Hamri verði boðnar út á sama tíma og bygging nýja hlutans,“ segir Olga Lísa Garðarsdóttir, skólameistari FSu.

Fyrri greinSelfoss tapaði í Árbænum
Næsta greinFóru í sund og skildu fötin eftir