Viðbúnaður færður niður á hættustig

Almannavarnir hafa ákveðið að færa viðbúnað vegna eldgossins á Fimmvörðuhálsi niður um eitt háskastig. Viðbúnaður hefur verið á neyðarstigi en mun frá og með deginum í dag færast á hættustig.

Þessi breyting á háskastigi snýr fyrst og fremst að viðbúnaði þeirra sem fara með stjórn aðgerða en breytir því ekki að á meðan gos er í gangi eða líkur á að það byrji aftur er þörf á fullri gát við eldstöðina á Fimmvörðuhálsi.

Þær takmarkanir á umferð sem áður hafa verið kynntar eru í fullu gildi. Öll umferð innan eins kílómetra radíus við gosstöðina er bönnuð og einnig umferð um Hrunagil, Hvannárgil og Eyjafjallajökul. Umhverfis sjálfa gosstöðina er skilgreint hættusvæði áfram í fimm kílómetra radíus.

Fyrri greinEnnþá kraumar í katlinum
Næsta greinÁ ofsahraða í Eldhrauninu