„Við erum á svipuðum stað eða betri en lúðrasveitir úti í heimi“

Það er óhætt að segja að Lúðrasveit Þorlákshafnar hafi slegið í gegn á alþjóðlegu lúðrarsveitamóti í Lettlandi fyrir skömmu, þar sem sveitin hafnaði í 2. sæti.

Þetta er í 20. skipti sem keppnin er haldin en lúðrasveitinni var boðið að taka þátt vegna þess að vinabæjarsamningur var gerður á milli Ölfus og lettnenska bæjarins Auce en skrifað var undir samninginn við hátíðlega athöfn þar ytra. Því bauð bæjarstjórnin í Auce bæjarstjóranum í Ölfusi, Guðsteini R. Ómarssyni og allri lúðrasveitinni að koma og taka þátt í hátíðarhöldunum.

Hulda Gunnarsdóttir, formaður Lúðrasveitar Þorlákshafnar segir að hún og félagar hennar hafi ekki haft hugmynd um út í hvað þau voru að fara.

„Við fórum bara með því hugarfari að það væri frábært að fá tækifæri til að ferðast til Lettlands og vera með öðrum lúðrasveitum. Það kom okkur kannski ekkert sérstaklega á óvart að við skyldum verða í öðru sæti en það kom okkur aðallega á óvart hvað við erum greinilega á svipuðum stað og jafnvel betri en margar lúðrasveitir út í heimi.“

Að sögn Huldu var þátttakan í lúðrasveitakeppninni í Lettlandi ótrúlega magnað ævintýri.

„Eftir þetta höldum við bara okkar striki og höldum áfram að breiða út boðskap lúðrasveitarmenningarinnar,“ segir Hulda og bætir við að það sé nóg framundan hjá Lúðrasveit Þorlákshafnar.

„Við erum með ýmis járn í eldinum sem eiga eftir að koma í ljós með haustinu.“

Fyrri greinAlvarleg bilun í Rimakoti
Næsta greinKæra fast­eigna­mat tveggja vind­myllna