„Viðtökurnar hafa verið mjög góðar“

Síðastliðinn laugardag opnaði María Marko hönnunar- og gjafavöruverslunina Kastalann að Eyravegi 5 á Selfossi.

„Ég stefni á að vera sem mest með íslenska hönnun en upphaflega var ég að leita mér að plássi fyrir stúdíó og hugsaði með mér að það væri kannski sniðugt að hafa smá horn sem væri verslun,“ segir María sem vinnur einnig sem vöruhönnuður og selur meðal annars vörur sínar í Kastalanum.

„Svo vatt þessi verslunarhugmynd upp á sig þannig að meirihlutinn af plássinu varð verslun og ég er ekki ennþá búin að koma stúdíóinu fyrir,“ segir María og brosir.

Auk hönnunarvöru selur María tvær tegundir af pottaplöntum; rifblöðkur og kaktusa. „Ég bjó í tvö ár á Samóa-eyjunum í Kyrrahafinu og þaðan kemur tengingin við rifblöðkurnar. Mér finnst svo mikilvægt að hafa grænt í kringum mig allt árið og þessar blöðkur eru mikið í tísku núna. Ég gat heldur ekki sleppt kaktusunum því þeir eru svona eins og vaxandi skúlptúr. Þannig að ég varð að hafa þetta með.“

María er annar helmingurinn af Terta Duo hönnunarteyminu sem meðal annars hefur hannað hin vel þekktu eyrnamarkaplaggöt, púðaver og afmælisdagatöl, svo eitthvað sé nefnt.

„Svo er ég líka hérna með útikertastjaka frá Terta Duo sem er hannaður sérstaklega fyrir íslenskar aðstæður með dreni fyrir sunnlenska rigningu. Ég hef verið í samskiptum við fleiri íslenska hönnuði og vörunum mun fjölga til muna hérna á næstunni,“ bætir María við og segir viðtökurnar hafa verið góðar.

„Já, það var fullt af fólki sem kom við hérna á laugardaginn og viðtökurnar hafa verið mjög góðar þessa tvo daga sem ég er búin að vera með opið. Miðað við jákvæðnina í fólki þá er ég mjög bjartsýn á þetta. Verslunin verður í stöðugri þróun og markmiðið er að Selfyssingar og nærsveitungar þurfi ekki að fara langt til að finna fallega íslenska hönnunarvöru,“ segir María að lokum.

Fyrri greinSæmundur gefur út Líkvöku
Næsta greinBieber á brókinni í sunnlensku baði