„Viðtökurnar hafa verið frábærar”

Berglind Rós Magnúsdóttir, fatahönnuður hjá Beroma, er byrjuð að selja barnaföt og fleiri vörur í versluninni Hosiló á Selfossi.

Berglind hefur saumað og selt fjölbreytt úrval af barnafötum á stráka og stelpur undanfarið ár undir merkinu Beroma. Það sem byrjaði sem saumaskapur á yngsta soninn hefur undið upp á sig og nú sér Berglind nánast eingöngu um að hanna fatnaðinn og sauma sérpantanir en hefur svo nokkrar saumakonur á sínum snærum.

„Það að ég flytti inn til Elínar og Hjördísar í Hosiló er búið að vera hugmynd í svolítinn tíma og eitthvað sem verður skemmtilegt að þróa. Ég sæki mikið innblástur í gamla tíma og vörurnar mínar passa vel inn í vintage-þemað hjá þeim. Hingað til hafa Selfyssingar og nærsveitamenn ekki verið þeir duglegustu að versla við mig þannig að þetta er ennþá bara á tilraunastigi,” sagði Berglind í samtali við sunnlenska.is. „Viðtökurnar hafa hins vegar verið frábærar og langt umfram það sem ég hafði vonað.

Áður höfðu nokkrar verslanir selt fyrir mig hér á landi í umboðssölu en ég er reyndar hætt því fyrirkomulagi. Í lok síðasta árs byrjaði ég að selja vörur til verslana í Svíþjóð og nú nýlega einnig til Bandaríkjanna,” segir Berglind en auk þess að selja vörur út fyrir landsteinana stendur hún í innflutningi á fjölbreyttum barnavörum sem seldar eru í Hosiló.

„Ég hef verið að flytja inn allskonar vörur fyrir börn sem falla inn í þetta sama þema, t.d. rosa flottar veggfóðursmyndir frá Hollandi, handsaumaða sænska sixpensara á stráka, sundfatnað og hnífapör frá Bandaríkjunum og ýmislegt fleira,” segir Berglind sem hyggst færa frekar út kvíarnar og opna netverslun innan skamms á www.beroma.is.