„Viðtökurnar hafa verið frábærar“

Síðastliðinn laugardag opnaði verslunin The Pier á Selfossi. „Viðtökurnar hafa verið frábærar,“ segir verslunarstjórinn.

„Fólk er greinilega mjög ánægt að fá Pier á Selfoss miðað við þau fallegu hrós sem við höfum fengið frá viðskiptavinum okkar,“ segir Edda Margrét Stefánsdóttir Arndal, verslunarstjóri Pier á Selfossi.

„Við erum nú þegar með þrjár búðir, tvær á höfuðborgarsvæðinu og eina á Akureyri. Okkur fannst vera kominn tími á að bæta einni búð við í fjölskylduna og Selfoss varð strax fyrir valinu. Okkur langaði að ná til sumarbústaðaeigenda og fólksins í sveitunum og vonandi tekst það með þessari flottu staðsetningu,“ segir Edda en Pier til húsa að Austurvegi 69, þar sem Rúmfatalagerinn var áður til húsa.

„Pier selur gjafavörur og húsgögn, hægt er að finna nánast allt fyrir heimilið, púða, rúmteppi, ljós, búsáhöld og fleira. Pier býður einnig upp á flott úrval af sófum af öllum stærðum og gerðum á mjög sanngjörnu verði,“ segir Edda en verslunin er í rúmgóðu húsnæði á Selfossi og getur því boðið upp á fjölbreytt og gott vöruúrval.

Edda segist vera þakklát fyrir þær góðu viðtökur sem verslunin hefur fengið. „Við viljum þakka kærlega fyrir þessar góðu viðtökur. Það er ekkert sem kætir okkur meira en öll þessi fallegu hrós frá viðskiptavinum okkar,“ segir Edda að lokum.

Fyrri grein„Kjóllinn“ í borðstofu Hússins í sumar
Næsta greinUnglingar í BES koma upp skólalundi í Hallskoti