Viðsnúningur hjá Árborg

Afkoma sveitarfélagsins Árborgar árið 2010 batnar verulega milli ára og er hagnaður af samstæðu upp á 172 milljónir í stað 449 milljóna króna taps árið 2009.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Ástu Stefánsdóttur, framkvæmdastjóra sveitarfélagsins. Þar segir að í reynd sé um að ræða bætta afkomu upp á 621 milljón króna milli áranna 2009 og 2010. Upphafleg áætlun gerði ráð fyrir tapi á samstæðu upp á 429 milljónir og er því niðurstaðan 602 milljónum betri en í þeirri áætlun. EBITDA hækkar úr 4% í 10% í A-hluta og úr 16% í 19% á samstæðu.

Hlutfall launakostnaðar fer úr 52% af heildartekjum í 48% milli ára. Enn er þó halli á bæjarsjóði en hann lækkar úr 606 milljónum króna í 60 milljónir á síðasta ári. Rekstrarniðurstaða bæjarsjóðs er þó jákvæð um 368 milljónir króna sem er 133% aukning EBITDA hagnaðar.

Heildarniðurstaðan upp á 172 milljónir í hagnað er mikil breyting til batnaðar. Að krónutölu er hér um mestan afgang að ræða af reglulegri starfssemi sveitarfélagsins frá upphafi. Meðalafkoma sveitarfélagsins síðustu níu ára af reglulegri starfssemi hefur verið tap upp á 130 milljónir á ári í samstæðu.

Skuldir eru enn verulegar og þarf enn að bæta rekstrarafkomu sveitarfélagsins til að unnt sé að greiða niður skuldir í viðunandi horf. Hlutfall skulda af samstæðu lækkar um 1,8 prósentustig en stefnt er að því að lækka skuldahlutfall verulega á næstu misserum. Áfram verður því unnið að hagræðingu eins og kostur er á.