Viðræður á viðkvæmu stigi

Viðræður um hugsanleg kaup Hvera­gerðisbæjar á Hitaveitu Hvera­gerðis eru á viðkvæmu stigi að sögn Aldísar Hafsteinsdóttur bæjar­stjóra Hvera­gerðis.

,,Við erum ennþá að skoða þetta með opnum hætti,“ sagði Aldís en vildi að öðru leyti ekki tjá sig um málið.
Að sögn Eiríks Hjálmarssonar, upplýsingafulltrúa Orkuveitu Reykja­­víkur, telja þeir hjá OR að boltinn sé nú hjá Hveragerðisbæ. Eins og komið hefur fram var kaup­samningur um hitaveitu Hveragerðis ótímabundinn. Í honum er gagn­kvæmt uppsagnarákvæði þar sem hvor aðili um sig getur sagt honum upp með 15 ára fyrirvara. Skal þá meta eignir og miða við endurstofn­verð og hlutfall aldurs af áætluðum líftíma eignanna.
Bæjarstjórn Hveragerðis hefur samþykkt heimild til samninga með eftirfarandi orðalagi um að Hitaveitu Hveragerðisbæjar verði ,,skilað aftur til Hvergerðinga gegn eðlilegu endurgjaldi.“ Eins og komið hefur fram í Sunnlenska þá telur OR að uppreiknað kaupverð og endurbætur nemi 1.018 milljónum króna og er það þeirra viðmið í viðræðunum.