Víðivöllum lokað vegna jarðsigs

Götunni Víðivöllum í austurbæ Selfoss hefur verið lokað vegna jarðsigs en hola myndaðist í götunni í gær. Tveggja fermetra holrúm er undir holunni.

Holan er í götunni á milli Víðivalla 10 og 12 en Víðivellir 12 voru rifnir vegna jarðskjálftatjóns eftir Suðurlandsskjálftann 2008.

Austurendi Víðivalla 10 hefur sigið nokkuð frá því í skjálftanum en Sæunn Ósk Kristinsdóttir, sem býr í húsinu, sagði í samtali við sunnlenska.is að ágreiningur væri uppi af hvaða völdum það væri en heimilisfólkið rekur sigið til Suðurlandsskjálftans.

Kaflinn þar sem holan myndaðist í götunni var farinn að síga, nokkuð áberandi þvert yfir götuna áður en holan myndaðist. Gangstétt er sigin og malbikið líka vegna jarðsigs sem líklega heldur áfram suður í Birkivelli, sem er næsta gata en þar var annað hús rifið vegna jarðskjálftatjóns.

Gatið í malbikinu er um hálfur meter í þvermál en undir því er stærra holrúm, metersdjúpt og líklega um tveir fermetrar.

Bæjarstarfsmenn munu skoða holuna í dag og þá verður fráveitulögnin við götuna mynduð til að kanna hvort laus jarðefni hafi farið inn í skolplögn.

vidivellir080811hre_278080716.jpg