Viðbygging tekin í notkun

„Í einu orði mun þetta breyta öllu fyrir okkur,“ segir Kristín Sigurðardóttir, skólastjóri Flóaskóla, en viðbygging við skólann er tekin í notkun í dag.

Viðbyggingin er um 1000 fm. og hófust framkvæmdir fyrir rétt rúmu ári síðan. „Það verður betri aðstaða fyrir list- og verkgreinakennslu, einnig er möguleiki á eðlisfræðistofu og þess háttar sem þarf fyrir eldri nemendur, þannig að sérhæfnin verður meiri,“ segir Kristín. „Þá verður aðstaða fyrir kennara mun betri.“

Framkvæmdum er ekki lokið en m.a. á eftir að dúkleggja innanhúss og klæða húsið að utan. Reiknað er með að verkinu verði lokið fyrir áramót.