Viðburðaríkir mánuðir framundan

Menningarnefnd Árborgar kynnti í síðustu viku þá viðburði sem fram munu fara í sveitarfélaginu á árinu. Alls eru 26 viðburðir kynntir á nýju veggspjaldi sem menningarnefnd hefur látið prenta.

Á blaðamannafundi, sem haldinn var í Bókasafninu á Selfossi, sagði Kjartan Björnsson, formaður menningarnefndar, að þar á bæ væru menn ákaflega stoltir af framtaki og frumkvæði íbúa sveitarfélagsins en fjölbreytt dagskrá er í boði allt árið. Veggspjaldinu sem nefndin hefur látið útbúa verður dreift víða á Suðurlandi og prentað í smærri mynd í dagskrárblað Vors í Árborg.

Um síðustu helgi lauk glæsilegu landsmóti kvennakóra þar sem 600 konur komu fram. Um næstu helgi verður Sunnlenski sveitadagurinn haldinn á Selfossi og dagana 12.-15. maí er hin árlega menningarhátíð Vor í Árborg. Fjöldi viðburða verður í gangi alla helgina ásamt fjölskylduleiknum Gaman-Saman.

Í júní verður haldið upp á 75 ára afmæli Ungmennafélags Selfoss, fjölskylduhátíðin Kótelettan fer fram um hvítasunnuhelgina og á Jónsmessunni er árleg hátíð á Eyrarbakka og Landsmót fornbílamanna og Delludagar á Selfossi.

Júlímánuður býður upp á tvö stórmót í íþróttum, Íslandsmótið í hestaíþróttum á Brávöllum á Selfossi og Meistaramót Íslands í frjálsum íþróttum á nýja frjálsíþróttavellinum á Selfossi. Þá er einnig árleg Bryggjuhátíð á Stokkseyri og um verslunarmannahelgina eru Fjölskyldudagar á Stokkseyri.

Fyrstu helgina í ágúst er bæjarhátíðin Sumar á Selfossi og Olísmótið í knattspyrnu og 13.-14. ágúst er árleg Aldamótahátíð á Eyrarbakka.

Brúarhlaupið er að vanda í september og í október verða fjölbreyttir menningarviðburðir í boði í svokölluðum menningarmánuði. Safnahelgi á Suðurlandi fer fram í byrjun október og í nóvember og desember verður jólastemmningin allsráðandi.