Viðbrögð nemenda misjöfn

„Einhverjir eru nátturulega himinlifandi með þetta „frí“ og nota tímann til að æfa og annað, á meðan þetta leggst illa í aðra.“

„Svo er þriðji hópurinn sem lítur bara á þetta sem þægilega stöðu og eru að taka áfangana sem „fjarnám“, það er að segja halda sig við kennsluáætlunina sjálfa,“ segir Rakel Lind Úlfhéðinsdóttir, formaður nemendaráðs Fjölbrautaskóla Suðurlands á Selfossi, aðspurð út viðbrögð nemenda vegna verkfalls framhaldsskólakennara.

Rakel segir að mæting nemenda í skólann hafi verið dræm það sem af er verkfallinu en bókasafnið og íþróttahúsið eru opin og hafa nemendur verið hvattir til að nýta sér það. Verkfallið hefur nú staðið yfir í ellefu daga og að sögn Rakelar hafa sárafáir nemendur verið að mæta í skólann.

„Ég tek upp hanskann fyrir kennarana, þetta er ömurleg staða og skrítið að ríkið skuli ekki sýna tillögum þeirra meiri áhuga,“ segir Rakel. Hún bætir því jafnframt við að þetta hafi margvíslegar afleiðingar. „Þetta verkfall snertir svo miklu fleiri heldur en bara kennara og nemendur. Mestar áhyggjur hef ég til dæmis af nemendum á starfsbraut og fjölskyldum þeirra.“

Að sögn Rakelar er ýmislegt framundan hjá nemendafélaginu. „Við verðum með einstaka uppákomur á næstunni eins og Fifa-mót, skvísukvöld og svo er eitt og annað í vinnslu,“ segir Rakel sem vonast til að verkfallinu ljúki fljótt.