Viðbótarútgjöld aukin

Ríkisstjórn Íslands samþykkti á föstudag viðbótarútgjöld upp á 88,5 milljónir króna vegna eldgosanna á Suðurlandi 2010 og 2011.

Ríkisstjórnin hefur nú lagt til viðbótarfjárveitingar sem nema um 1,3 milljörðum króna frá því að eldgosahrinan hófst í mars árið 2010.

Samráðshópur ráðuneytisstjóra um viðbrögð við náttúruhamförum hefur verið að störfum frá fyrri hluta árs 2010 og skilaði hann nýverið tillögum sínum til ríkisstjórnarinnar. Meðal annars var tekið mið af áherslum fulltrúa sveitarfélaganna þriggja á gossvæðinu við úthlutun.

Meðal þeirra viðbótarútgjalda sem ríkisstjórnin samþykkti var 82,5 milljóna króna aukafjárframlag til Vegagerðarinnar vegna viðbótarútgjalda sem urðu vegna eldgosa og hamfara tengdra þeim. Þar af eru 20 milljónir tengdar vinnu og breytingum við Svaðbælisá.