„Við tökum við góðri uppskrift“

Það er óhætt að segja að hinn vinsæli veitingastaður Við fjöruborðið á Stokkseyri standi undir nafni, enda ekki margir metrar að fara í ískalt Atlantshafið.

Gestirnir streyma að allan ársins hring, ekki síst útlendingar, sem í mörgum tilvikum heimsækja þetta vinalega veitingahús eftir vel heppnaðan túr um Suðurland og ósjaldan er undrunarsvipur á fólki að finna svo frábæran stað í litlu þorpi við sjávarsíðuna.

Þeir Eiríkur Þór Eiríksson og Pétur Viðar Kristjánsson eignuðust staðinn þann 1. febrúar síðastliðinn, keyptu reksturinn af Róbert Ólafssyni sem hefur rekið veitingastaðinn undanfarin ár. Þeir segja mikilvægt að hafa hvorn annan í þessum rekstri, það veiti öryggi að vita af félaganum við störf, ef annar er í fríi. Veitingahúsarekstur getur verið krefjandi og kallar á mikla vinnu, en þeir Eiríkur og Pétur vita alveg hvað þeir eru að tala um í þeim efnum, voru báðir með málningarúlluna uppi við þegar blaðamenn bar að garði. „Það þarf alltaf að ditta aðeins að,“ segir Eiríkur.

Eiríkur hefur starfað sem matreiðslumaður á staðnum undanfarin fimm ár og Pétur hefur starfað þar í heilan áratug, og það er því fátt sem kemur þeim félögum á óvart í rekstrinum. „Við höfum svosem tekið þátt í að móta þennan stað á undanförnum árum,“ segir þeir félagar. „Við tökum við góðri uppskrift,“ bæta þeir við. Þess vegna verða áherslubreytingarnar litlar hjá þeim félögum.

Og hverju ætti svo sem að breyta. Það er engum blöðum um að fletta að fólk sækir í sérstöðuna sem þessi veitingastaður býður upp á, sem er humar og aftur humar. Gestirnir urðu yfir fjörutíu þúsund á síðasta ári og allt lítur út fyrir að gestirnir haldi áfram að koma í stórum hópum. „Það er aðeins rólegra þessa dagana, enda lítið að gera í norðurljósaferðunum,“ segir Eiríkur.

Tengsl staðarins við þá sem ferðast með erlenda ferðamenn um Suðurland eru góð, sömu ferðaþjónustuaðilarnir koma aftur og aftur með útlenda gesti sína. Þeir Eiríkur og Pétur segja mikilvægt að halda þessum góðu tengslum en þá verði líka þjónustan að vera í lagi.

„Við höfum hér gott starfsfólk sem við getum treyst,“ segja þeir. Á staðnum eru um 13 til 14 fastir starfmenn yfir veturinn og um 10 til 15 í hlutastörfum, enda er opið frá kl. fimm síðdegis yfir vetrartímann í miðri viku. Þetta breytist á sumrin, afgreiðslutíminn er lengri og fjöldi starfsmanna lætur nærri að vera 25 til 30 yfir sumarið. Það veitir heldur ekki af því að vera með marga góða starfsmenn þegar von er á átta til níu þúsund manns í mat á einum mánuði, líkt og var í júlí í fyrra.

Fyrri greinÁnægjulegur afmælisdagur á Laugarvatni
Næsta greinFlóahreppur kominn á Facebook