„Við höfum alveg efni á þessu“

Oddviti Skeiða- og Gnúpverjahrepps segir að kaup sveitarfélagsins á borðbúnaði af Kvenfélagi Skeiðamanna á 1,7 milljónir króna séu sjálfsögð. Sveitarfélagið hafi sparað mikið á því að hafa haft afnot af borðbúnaðnum án endurgjalds og ekki sé eðlilegt að góðgerðarsamtök styrki vel stæð sveitarfélög.

Það ætti frekar að vera á hinn veginn.

RÚV greinir frá þessu.

Eins og fram kom í fréttum í síðustu viku samþykkti sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps að kaupa borðbúnað og skápa fyrir félagsheimilið Brautarholt af Kvenfélagi Skeiðamanna á 1,7 milljónir króna. Gunnar Örn Marteinsson, fulltrúi F-listans í sveitarstjórninni, gagnrýndi kaupin og sagðist ekki skilja hvers vegna hreppurinn ætti að leggja í þennan kostnað.

Skafti Bjarnason, oddviti Skeiða- og Gnúpverjahrepps segir í báðum félagsheimilum sveitarfélagsins séu haldnar veislur og þar sé einnig matur fyrir leikskóla- og skólabörn. „Í báðum húsum þarf að vera leirtau. Það skilja allir,“ segir Skafti í samtali við RÚV.

Þetta hafi Gunnar Örn einnig skilið þegar hann hafi verið oddviti. Hann hafi á þeim tíma samþykkt borðbúnaðarkaup fyrir rúmlega 1,7 milljónir króna, þar af hafi rúmar 800.000 krónur farið í kaup á borðbúnaði fyrir Brautarholt þótt til væri borðbúnaður frá kvenfélaginu. Fyrir utan þá upphæð hafi borðbúnaðarkaup í Brautarholti kostað sveitarfélagið um 130 þúsund, en á sama tíma séu heildarkaup í borðbúnaði 3,5 milljónir.

„Skýringin á því hvers vegna lítill kostnaður var í Brautarholti er sú að kvenfélagið átti og keypti leirtau,“ segir Skafti. Sveitarfélagið hafi ekki greitt kvenfélaginu fyrir afnot af þessum borðbúnaði.

„Ég tel það skammarlegt að vel stætt sveitarfélag eins og Skeiða- og Gnúpverjahreppur sé á styrkjum frá kvenfélaginu. Þeir peningar gagnast öðrum betur,“ segir Skafti. „Við höfum alveg efni á þessu.“

Frétt RÚV