Vg klofnir í Suðurkjördæmi

Vinstri grænir eru klofnir í Suðurkjördæmi segir Atli Gíslason sem sagði sig úr þingflokki Vg í gær.

Kjördæmisráð flokksins í Suðurkjördæmi segir að trúnaðarbrestur hafi orðið á milli Atla Gíslasonar og stjórnar kjördæmisráðsins. Atla sé ekki lengur sætt í umboði kjósenda VG á Suðurlandi.

Atli sagði í Morgunútvarpi Rásar tvö í morgun að fylgi VG hafi aukist úr 4% í 17% frá 2006 til 2009. Eftir að samþykkt var að hefja aðildarviðræður við ESB hafi fjöldi trúnaðarmanna og almennra félagsmanna sagt sig úr flokknum í Suðurkjördæmi.

Flokkurinn væri í raun klofinn í herðar niður í kjördæminu. Hann teldi sig sitja sem þingmaður í umboði mjög margra en alls ekki allra í kjördæminu.