Vg í Árborg varar við verslunarmiðstöð

Vinstri hreyfingin grænt framboð í Árborg varar við þeirri stefnu að samhliða breyttri legu Þjóðvegar 1 verði skipulagt svæði fyrir verslunarmiðstöð í landi Árborgar við Biskupstungnabraut.

Félagið ályktaði þess efnis á aðalfundi sínum á dögunum. Í ályktuninni segir að mest af þeirri þjónustu sem fyrirhugað sé að koma á fót í verslunarmiðstöðinni sé þegar til staðar á Selfossi og vandséð að nýr kjarni utan bæjarins bæti þar neinu við.

Á móti geti hann “dregið úr þeim fjölbreytileika og gæðum þeirrar þjónustu sem fyrir er í líflegum miðbæ Selfoss,” segir í ályktuninni.

Jafnframt skorar fundur Vg í Árborg á bæjarstjórn Árborgar “að beita skipulagsvaldi með þeim hætti að það tryggi áframhaldandi uppbyggingu verslunar og þjónustu innan þéttbýlis á Selfossi.”

Á fundinum var stjórn félagsins endurkjörin en formaður er Andrés Rúnar Ingason.