Vettvangshjálparlið í uppsveitunum

Í dag var undirritað samkomulag um stofnun vettvangshjálparliðs á Flúðum sem getur veitt fyrstu viðbrögð í alvarlegum slysum og veikindum í uppsveitum Árnessýslu.

Það eru félagar úr Björgunarfélaginu Eyvindi á Flúðum sem skipa vettvangshjálparliðið en samkomulagið er gert milli þeirra, Heilbrigðisstofnunar Suðurlands, lögreglunnar í Árnessýslu og Árnesingadeildar Rauða krossins.

Vettvangshjálparliðið verður mannað þrettán félögum í Björgunarfélaginu sem hafa undirgengist bráðaliðanámskeið og er hlutverk þeirra að bregðast við ef lögregla eða sjúkraflutningamenn HSu óska eftir aðstoð í alvarlegri slysum og eða veikindum, t.d hjartastoppi eða alvarlegum bílslysum.

Árnesingadeild Rauða Krossins, útvegar sjúkrabúnað fyrir hópinn og HSu mun útvega þau sjúkragögn sem til þarf.

Ármann Höskuldsson, umsjónarmaður sjúkraflutninga hjá HSu, segir að þetta fyrirkomulag hafi verið reynt á Kjalarnesinu í 2-3 ár og reynst mjög vel. Þar hafi m.a. þremur einstaklingum verið bjargað úr hjartastoppi.

“Við erum heppnir að eiga Björgunarfélagið Eyvind að. Þeir hafa aðstoðað okkur í útköllum og gert það vel. Þetta kerfi er ekki hrist fram úr erminni og gerist ekki nema allir sýni áhuga og leggi sig fram,” sagði Ármann í samtali við sunnlenska.is.