Vetrarkvíði í Sandvíkurhreppi

Það stirndi á túnin í Stóru-Sandvík í Sandvíkurhreppi í haustsólinni í gær, líkt og þau væri hrímuð. Svo var þó ekki því túnin voru sveipuð fíngerðum köngulóarþráðum.

Þetta fyrirbæri kallast vetrarkvíði og er talinn boða harðan vetur. Þræðirnir eru búnir til af smáum voðköngulóum sem klifra upp á strá og spinna þráð upp í loftið. Þegar þráðurinn er orðinn nógu langur og vindurinn farinn að taka í hann þá sleppir köngulóin takinu á stráinu og svífur upp í loftið. Með þessu móti geta þær borist langar leiðir.

Mest ber á þessum ferðum köngulóa á haustin og ef mikið er af þeim geta þræðir þeirra orðið áberandi eins og á myndinni með þessari frétt. Er þetta þá kallað vetrarkvíði og talið boða harðan eða erfiðan vetur.

Fyrri greinGuðrúnarbotnar skjálfa
Næsta grein,,Uppbyggingastefnan að skila sér”