Vesturhluti Víkur í Mýrdal orðinn verndarsvæði í byggð

Vesturhluti Víkur í Mýrdal. sunnlenska.is/Sigurður Hjálmarsson

Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra hefur staðfest tillögu um að vesturhluti Víkur í Mýrdal verði svokallað „verndarsvæði í byggð.“

Tilgangur slíkra svæða er að stuðla að verndun byggðar vegna svipmóts, menningarsögu eða listræns gildis þeirra. Tillögur um verndarsvæði koma frá viðkomandi sveitarfélagi en Minjastofnun Íslands veitir sveitarfélögum ráðgjöf við undirbúning tillagna og skilar einnig umsögn sinni til ráðherra.

Fjögur önnur ný verndarsvæði í byggð
Auk vesturhluta Víkur er fjögur önnur ný verndarsvæði í byggð, en það eru framdalurinn í Skorradal, gamli bæjarhlutinn á Sauðárkróki, Þórkötlustaðahverfi í Grindavík og bæjarhlutarnir Plássið og Sandurinn á Hofsósi í Skagafirði.

Verndarsvæðið í Vík nær frá Víkurbraut 16 í austri og tekur til húsa norðan Víkurbrautar til og með bátaskýlisins við Víkurbraut 40a, auk Halldórsbúðar, Víkurbrautar 21a, Skaftfellingsbúðar og Víkurbrautar 19, 11 og 11a, sem eru sunnan götunnar. Innan þessarar afmörkunar eru verslunar- og íbúðarhús frá upphafi fjölbýlismyndunar í Vík og fram til ársins 1918, auk nokkurra yngri bygginga.

Ráðherra hvetur landsmenn til að heimsækja svæðin
„Menningararfur okkar Íslendinga er fjölbreyttur og byggð svæði eru hluti hans. Verndarsvæði í byggð geta meðal annars haft sögulegt, félagslegt eða fagurfræðilegt gildi fyrir fyrri, núlifandi og komandi kynslóðir. Fyrstu verndarsvæðin voru staðfest árið 2017 og nú eru þau orðin tíu talsins. Ég hvet landsmenn til þess að heimsækja þessi svæði og kynna sér merkilega sögu þeirra og þýðingu – bæði þá og nú,“ segir Lilja Alfreðsdóttir.

Brydebúð var byggð árið 1831. sunnlenska.is/Sigurður Hjálmarsson
Halldórsbúð var byggð 1903 sem verslunarhús. sunnlenska.is/Sigurður Hjálmarsson
sunnlenska.is/Sigurður Hjálmarsson
Skaftfellingsbúð er byggð árið 1958 sem skemma en hefur nú verið í notkun sem safn undir Skaftfelling, fyrsta vélbátinn sem kom til Víkur. sunnlenska.is/Sigurður Hjálmarsson
Fyrri greinRúta með 23 innanborðs valt á Mosfellsheiði
Næsta greinÓlafía Ósk tvíbætti eigið HSK met – Hulda vann kúluna á Íslandsmeti