Vesturbúð á Eyrarbakka lokað

Versluninni Vesturbúð á Eyrarbakka verður lokað frá og með þriðjudeginum 4. mars og verður því engin matvöruverslun á Bakkanum sem í gegnum aldirnar var helsti verslunarstaður Suðurlands.

Í tilkynningu til viðskiptavina segja þeir Finnur Kristjánsson og Agnar Bent Brynjólfsson að vegna viðvarandi samdráttar í versluninni og stöðugt hækkandi rekstrarkostnaðar sjái þeir sér því miður ekki annað fært en að loka Vesturbúð.

„Þessi ákvörðun er okkur afar þungbær og þvert á þær vonir sem við bundum við í upphafi. Við viljum engu að síður þakka þeim mörgu trúföstu viðskiptavinum sem hafa þó haldið okkur gangandi síðustu fimm ár

Finnur og Agnar reka einnig verslun á Borg í Grímsnesi og ætla þeir að „berjast þar áfram“ eins og þeir orða það sjálfir.

Þeir Finnur og Agnar opnuðu Vesturbúð snemma árs árið 2009 en þá hafði ekki verið nein verslun á Eyrarbakka í nokkra mánuði eftir að verslunin Merkisteinn lokaði, en hún var í sama húsi og Vesturbúð.

Um aldamótin 1900 voru að minnsta kosti fimmtán verslanir á Eyrarbakka en eftir lokun Vesturbúðar verður Verslun Guðlaugs Pálssonar eina verslunin í þorpinu en hún er opin um helgar og þar er seld gjafavara og ýmiskonar sérvara.

Fyrri greinFriðheimar fengu landbúnaðarverðlaunin
Næsta greinÞrjátíu keppendur frá fjórum félögum tóku þátt