Verulegur misbrestur á sóttvörnum á stórum mótum

Frá setningarathöfn Unglingalandsmótsins á Höfn í Hornafirði 2019. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

„Á síðastliðnum vikum hafa verið haldin íþróttamót og samkomur sem voru fjölmennari en 500 manns og lagt upp með að uppfylla sóttvarnir með hólfaskiptingu. Í kjölfarið hefur komið upp að verulegur misbrestur var á, þrátt fyrir góðan hug og mikla skipulagningu.“

Svo segir í minnisblaði yfirvalda um Ungingalandsmót UMFÍ, sem halda átti á Selfossi um verslunarmannahelgina. Mótinu hefur verið frestað um eitt ár.

„Ljóst er að ef komi upp hópsmit í kjölfar slíkra hátíða verður ómögulegt að rekja smitið. Þá væri öll vinna, góður árangur smitrakningar og heftun útbreiðslu veirunnar farin fyrir bí. Það er sameiginlegt mat almannavarna- og sóttvarnaryfirvalda að ekki sé ráðlegt að halda Unglingalandsmót UMFÍ þar sem ómögulegt sé að uppfylla allar gildandi kröfur um sóttvarnir vegna COVID-19,“ segir ennfremur í minnisblaðinu.

Minnisblaðið er gert af Almannavarnadeild Ríkislögreglustjóra, sóttvarnarlækni, umdæmislækni sóttvarna á Suðurlandi og lögreglustjóranum á Suðurlandi. Þar segir að farið hafi verið yfir mögulegar útfærslur mótsins á Selfossi og með hvaða hætti hægt sé að uppfylla leiðbeiningar um fjöldatakmarkanir. Sameiginlegt mat þessara aðila var, sem fyrr segir, að ekki sér ráðlegt að halda mótið í ár.

Á upplýsingafundi Almannavarna í dag hrósaði Víðir Reynisson Ungmennafélagi Íslands sérstaklega fyrir að hafa tekið þá ábyrgu, en erfiðu ákvörðun að fresta mótinu.

Fyrri greinUnglingalandsmóti UMFÍ á Selfossi frestað um ár
Næsta greinFyrsti sigur Hamars í deildinni