Verulega órólegur eftir afskipti lögreglu

Aðfaranótt miðvikudags veittu lögreglumenn á vakt athygli manni á göngustíg við Fossheiði á Selfossi þar sem hann henti frá sér rusli.

Lögreglumennirnir höfðu afskipti af manninum en hann varð verulega órólegur þegar hann varð lögreglumannanna var og lét sem hann sæi þá ekki og lagði á flótta sem mistókst.

Við leit á manninum fundust á annan tug gramma af hvítu dufti sem talið er vera amfetamín. Hann var handtekinn og yfirheyrður á lögreglustöð.

Efnið verður sent til rannsóknar. Þegar niðurstaða þeirrar rannsóknar liggur fyrir verður málið sent til ákærusviðs lögreglustjórans á Suðurlandi.

Fyrri greinGrunuð um innbrot í tvo bústaði
Næsta greinÁrni bauð lægst í Hvammsveg