Veruleg skerðing frá Jöfnunarsjóði

Ísólfur Gylfi Pálmason, sveitarstjóri Rangárþings eystra, óttast að framlag úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga geti lækkað um allt að 20 milljónum króna.

Byggðaráð Rangárþings eystra hefur samþykkt að útsvarshlutfall árið 2011 verði óbreytt, þ.e. 13,28%, en með fyrirvara um að nauðsynlegar lagabreytingar nái fram að ganga á Alþingi um tilfærslu þjónustu við fatlaða frá ríki til sveitarfélaga og hækkun útsvarshlutfalls um 1,20 prósentustig sem af því leiðir, verður álagningarhlutfallið 14,48% á árinu 2011.

Að sögn Ísólfs Gylfa er ljóst að erfitt verður að koma saman fjárhagsáætlun næsta árs og verður lokaafgreiðsla hennar geymd til frekari umræði innan bæjarráðs en Ísólfur sagði að raunveruleg afgreiðsla yrði ekki fyrr en við 2. umræðu. ,,Við höfum velt við hverjum steini en þetta verður erfitt,“ sagði Ísólfur Gylfi í samtali við Sunnlenska.

Hann segir tvær ástæður fyrir þessari erfiðu stöðu. Annars vegar er ljóst að minni innheimta verður vegna minni tekna íbúa og svo hins vegar að það kemur lægra framlag úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga.

,,Það bendir flest til þess að þaðan fáum við mun minni tekjur sem hefur gríðarleg áhrif. Við óttumst að þessi samdráttur geti numið 20 milljónum króna,“ sagði Ísólfur Gylfi. Hann sagði að einnig gæti orðið samdráttur í fasteignagjöldum.