Versnandi skyggni á fjallvegum

Skil óveðurslægðarinnar í suðvestri fara yfir landið í dag og með þeim hvessir og með hríðarveðri um nánast allt land.

Suðvestanlands er vaxandi vindur og versnandi skyggni einkum á fjallvegunum, en á láglendi blotar um og fyrir hádegi og skyggni batnar þá. Hríðarveður hins vegar meira og minna til kvölds á Hellisheiði, Þrengslum og Mosfellsheiði.

Undir Eyjafjöllum og í Mýrdal hvessir mjög skömmu fyrir hádegi og þar verða hviðurnar allt að 40-50 m/s síðar í dag sem og í Öræfasveitinni þar sem einnig má gera ráð fyrir sandfoki.

VEÐUR OG FÆRÐ Á SUÐURLANDI KL. 10:37

Það er hálka og éljagangur á Hellisheiði og í Þrengslum en hálka og skafrenningur á Sandskeiði. Snjóþekja og einhver ofankoma víðast á Suður- og Suðvesturlandi. Hvassviðri er með Suðurströndinni eins og undir Eyjafjöllum.

Hálka og hálkublettir eru með suðausturströndinni og mikið hvassviðri eins og í Öræfum.

Fyrri greinVísindavika á Örk
Næsta greinBúið að opna undir Eyjafjöllum