Verslunin allt of lítil fyrir sumarvertíðina

Sveitarstjórn Mýrdalshrepps hvetur til þess að eigendur verslunarinnar Kjarvals hugi sem allra fyrst að metnaðarfullum endurbótum á versluninni sem anni sívaxandi verslun í Vík.

Í bókun sveitarstjórnar frá síðasta fundi sínum segir að trúlega megi fallast á að verslunarpláss Kjarvals í Vík sé af ásættanlegri stærð yfir vetrarmánuðina, en verslunin sé allt of lítil og þröng mánuðina frá byrjun maí og út september.

„Ferðamannatíminn hefur verið að lengjast mikið á okkar svæði og sl. vetur var ferðamannastraumurinn í febrúar álíka og í maí undanfarin ár,“ segir sveitarstjórnin og bendir einnig á að sú ákvörðun eigenda verslunarinnar að taka að sér afgreiðslu Íslandspósts og koma henni fyrir við hliðina á búðarkassa í versluninni sé algerlega óásættanleg.

Fyrri greinTíu ár liðin frá sögufrægum tónleikum
Næsta greinBíða eftir fundi með ráðherra