Verslun að ná réttu róli

Rofið á hringveginum sem varð þegar brúin á Múlakvísl fór í hlaupi á dögunum setti sitt mark á verslun í Vík í Mýrdal.

Þórir N. Kjartansson í Víkurprjón segir að salan hjá sér hafi hrapað um ríflega helming á þeim dögum sem vegurinn var lokaður. Strax og bráðabirgðabrúin var komin upp glæddist salan og er á því róli sem hún er vön að vera segir Þórir.

„Umferðin fór hreinlega nær öll framhjá okkur um Fjallabakið,“ segir Þórir.

Hann segir það ekki skrítið að ferðaþjónustuaðilar á svæðinu hafi orðið hvekktir þegar fréttist að það gæti tekið þrjár vikur að koma umferðinni aftur á þjóðveginn. „Hefðu menn vitað að þetta tæki aðeins tæpa viku þá hefðu þeir aðilar verið rólegri,“ segir Þórir.

Fyrri greinGætu selt 30% meira af nautkjöti
Næsta greinIngólfur aftur í Selfoss