Verkstæði Suðurverks splundraðist

Stórt tjald á járngrind sem starfsmenn Suðurverks nota undir verkstæði við Landeyjahöfn splundraðist í hvassviðrinu í lok síðustu viku.

“Það voru mjög hvassir strengir hérna og ein hurðin á tjaldinu virðist hafa fokið inn í það. Það var ekki að sökum að spyrja að dúkurinn tættist upp af járngrindinni,” segir Helgi B. Gunnarsson, yfirverkstjóri Suðurverks í Landeyjahöfn.

“Sem betur fer var enginn inni í tjaldinu. Vinna lá niðri framan af þessum degi vegna veðurs,” segir Helgi og bætir við að Suðurverk hafi reist þetta tjald víða um land og það hafi þolað allskonar veður.

Ekki varð tjón á öðrum búnaði fyrirtækisins í þessu áhlaupi en Helgi segir að menn hafi lent í ýmsu í vetur og alltaf verði öðru hvoru tjón á tækjum vegna foks í dýpstu vetrarlægðunum.