Verklokum fagnað í orkuskiptum á Kili

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, ávarpaði kaffisamsæti þeirra sem komu að verkefninu. Ljósmynd/Stjórnarráðið

Í gær var haldið upp á verklok þess að 67 kílómetra rafstrengur og ljósleiðari hefur verið lagður um Kjöl.

Strengurinn leysir af hólmi díselvélar sem ferðaþjónustuaðilar hafa reitt sig á hingað til. Þetta gerbreytir rekstrargrundvelli ferðaþjónustu á Kili og eykur fjarskiptaöryggi til mikilla muna á þessari fjölförnu hálendisleið sem í gegnum aldirnar hefur verið annáluð fyrir draugagang.

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, ávarpaði kaffisamsæti þeirra sem komu að verkefninu hjá Vilborgu Guðmundsdóttur og Lofti Jónassyni í Myrkholti í Bláskógabyggð í gær og óskaði þar öllum til hamingju.

„Orkuskipti á Kili eru mikilvæg aðgerð fyrir framtíðarsýn um umhverfisvæna ferðaþjónustu sem byggist á endurnýjanlegum orkugjöfum,“ sagði forsætisráðherra við þetta tækifæri en Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, ávarpaði einnig samkomuna.

Í verkefninu taka einnig þátt sveitarfélögin Bláskógabyggð, Hrunamannahreppur, Húnavatnshreppur auk Neyðarlínunnar, Fjarskiptasjóðs, Rarik og ferðaþjónustufyrirtækja í Árbúðum, Kerlingafjöllum og Hveravöllum. Ríkið lagði 100 milljónir til verkefnisins en lagning strengsins kostaði um 285 milljónir. Með þessu heyra olíuflutningar til hálendismiðstöðva á svæðinu sögunni til.

Fyrri greinEitthvað fyrir alla fjölskylduna
Næsta grein„Viljum tryggja öryggi og heilsu þátttakenda“