Verklok við Þorláksbúð í sumar

Framkvæmdir við Þorláksbúð við Skálholtskirkju halda áfram og stefnt að verklokum í sumar. Árni Johnsen segir almenna sátt um verkið en afkomendur arkitekts eru enn ósáttir.

Deilur hafa staðið um verkefnið þar sem börn Harðar Bjarnasonar, arkitekts kirkjunnar, voru ósátt við bygginguna og telja hana skaða heildarmynd kirkjunnar og umhverfis hennar.

Árni Johnsen, talsmaður Þorláksbúðarfélagsins, segir í samtali við Fréttablaðið að húsið sé að mestu tilbúið að utan.

„Við erum búnir að klæða alla veggi og loft að innan en eigum eftir að setja timbur í gólfið og á gömlu hleðslurnar, sem verða setbekkir. Við erum að vonast til þess að að við náum að ljúka ákveðnum kostnaðarþáttum til að við getum skilað því af okkur í sumar.“

Árni vill ekki kannast við að mikill styr hafi staðið um framkvæmdina.

„Það voru nokkrir sem voru á móti því en heimamenn og þúsundir manna sem hafa komið þar hafa lýst yfir ánægju með þetta. Nú er þetta búið. Þetta er sögulegt hús með skemmtilega sögu. Þetta er lítið, fallegt hús, ekki nema fjögurra metra hátt, og mikið lagt í gerð þess.“

Kristján Valur Ingólfsson, vígslubiskup í Skálholti, segir í samtali við Fréttablaðið að ekki væri enn farið að áforma notkun á Þorláksbúð, enda hafi kirkjan ekki fengið húsið afhent. Í raun liggi ekki fyrir með hvaða hætti hún verði notuð eða hvort kyrrð sé komin á málið.

Hörður H. Bjarnason og Áslaug Guðrún systir hans, afkomendur Harðar arkitekts, hafa lýst yfir andstöðu sinni við byggingu búðarinnar, enda telja þau að með henni skaðist ásýnd Skálholtskirkju.

Úrskurðarnefnd skipulags- og byggingamála vísaði hins vegar frá kæru systkinanna þar sem búðin er ekki viðbygging við kirkjuna.

„Það var ekki tekið tillit til þess að kirkjan og nánasta umhverfi sé ein heild,“ sagði Hörður H. Bjarnason í samtali við Fréttablaðið.

Herði skilst að ekki sé hægt að fara lengra með málið. „Ekki nema farið verði í dómsmál, sem er bæði kostnaðarsamt og erfitt að spá um niðurstöðu þess. Þannig að ég held að okkar kostir séu uppurnir ef svo má segja.“

Þau eru hins vegar allt annað en sátt við lok mála og segja fagaðila í stéttinni, þar á meðal Arkitektafélag Íslands og Bandalag íslenskra listmanna, hafa ályktað sterklega gegn byggingu búðarinnar á þessum stað, án þess að tillit hafi verið tekið til þess.

Fréttablaðið