Verkfræðistofa Suðurlands sameinast Eflu

Verkfræðistofa Suðurlands heitir nú Efla Suðurland eftir samruna við Eflu verkfræðistofu um áramótin.

Verkfræðistofa Suðurlands hefur verið að fullu í eigu Eflu, verkfræðistofu frá árinu 2008, og hefur samstarf fyrirtækjanna skilað góðum árangri og verið báðum aðilum til hagsbóta. Með þessu verður skrifstofan á Selfossi hluti af starfsemi EFLU verkfræðistofu með fjölbreytt bakland í þekkingu og þjónustu.

EFLA Suðurland mun áfram leggja höfuðáherslu á öfluga starfsemi og þjónustu á Suðurlandi. Starfsmenn EFLU Suðurlands munu fá frekari tækifæri til að taka þátt í verkefnum EFLU um allt land og erlendis, og styrkja þannig starfsemina og þekkingu á Suðurlandi um leið.

Engar breytingar verða í hópi starfsfólks, og verður starfsemin áfram í núverandi húsnæði. Starfsmenn Eflu á Suðurlandi eru tólf talsins.