Verkfall samþykkt með miklum meirihluta

Niðurstaða liggur fyrir í atkvæðagreiðslu Bárunnar stéttarfélags um aðgerðir vegna kjarasamninganna. Þar sögðu 90,24% já við verkfallsaðgerðum.

Kjörsókn í almenna samningnum var 45,72% og 90,24% sögðu já við verkfallaðgerðum. Kjörsókn vegna þjónustusamningsins (hótel og gistihús) var tæp 25%. Mikill meirihluti samþykkti verkfallaðgerðir eða 85,5%.

Fyrsta vinnustöðvunin skellur á fimmtudaginn 30. apríl nk. frá klukkan tólf hádegi til klukkan 24 á miðnætti.

Þar næst verður vinnustöðvun 6.-7. maí, báða dagana frá miðnætti til miðnættis. Aftur verður vinna stöðvuð 19.-20. maí, báða dagana frá miðnætti til miðnættis.

Á miðnætti 26. maí tekur síðan við ótímabundin vinnustöðvun.

Í frétt frá Bárunni segir að svipaðar fréttir berist frá öðrum félögum og greinilegt að mikil samstaða ríki meðal félaga starfsgreinasambandsins, þ.e. þeirra sextán aðildarfélaga sem hafa sameinast um kröfugerðina.