Verkeining bauð lægst í leikskólabyggingu

Tölvugerð mynd af fyrirhugaðri leikskólabyggingu.

Verkeining ehf í Kópavogi átti lægsta tilboðið í byggingu nýs leikskóla við Bárugötu í Þorlákshöfn. Tilboð Verkeiningar hljóðar upp á 595 milljónir króna og er 88% af áætluðum verktakakostnaði Sveitarfélagsins Ölfuss.

Sjö önnur tilboð bárust í verkið og voru tvö þeirra undir kostnaðaráætlun sem er 676,6 milljónir króna.

Hrafnshóll ehf bauð 626 milljónir króna, Gísli ehf/Hagafoss 673 milljónir, Múr- og málningarþjónustan Höfn 680,3 milljónir, Fortis ehf 695 milljónir, Alefli ehf 737 milljónir, Flotgólf ehf 875,6 milljónir og Ístak hf. 880,4 milljónir króna.

Nýi leikskólinn er fjögurra deilda leikskóla og er grunnflötur hússins tæpir 880 fermetrar. Gert er ráð fyrir möguleika á að stækka leikskólann í sex deildir fyrir allt að 128 börn á síðari stigum.

Byggingin á að vera tilbúin þann 1. september á næsta ári.

Fyrri greinSamið um starfslok eftir rasísk ummæli kennara
Næsta greinForskotið jókst í seinni hálfleik